Það var einn ákveðinn réttur sem mamma gerði mjög oft fyrir veislur og slíkt sem mér fannst svo sjúklega góður. Það var brauðréttur í ofni með mæjónesi, rjóma, aspas, ananas og skinku, mmmmm. En hann var með skinku, mæjónesi og rjóma og því nokkuð augljóslega ekki vegan né fyrir grænmetisætur, svo ég hef ekki borðað hann í einhver ár.
En ég var í tilrauna stuði í gær og prófaði að endurgera hann með 100% vegan hráefnum! Hann er aðeins öðruvísi en hjá mömmu, en mér finnst hann samt sem áður svoooo góður. Það þarf varla að taka það fram, en þessi réttur er langt frá því að vera heilsuréttur, en það er lítið gaman að vera vegan og leyfa sér ekki stundum aðeins 😉
(Í þessari uppskrift sleppti ég ananasinum, en aðal smakkarinn minn borðar ekki ananas! Ég mæli hinsvegar 100% með því að nota hann ef ykkur finnst hann góður, hann kæmi þá í staðin fyrir aðra aspas dósina.)
Smá varðandi vegan mæjónes: Vegan mæjónes fæst orðið í þónokkuð mörgum búðum, en þar má nefna Gló í fákafeni, Hagkaup og Krónuna. Merkin sem ég veit að hafa verið með vegan mæjónes eru Fabanaise, Follow your heart og Earth Balance. Þessar vörur geta hinsvegar verið í dýrari kanntinum, svo ég vil benda á hversu ofboðslega lítið mál er að gera sitt eigið. Hér eru tvær góðar uppskriftir frá Önnu Karen og Bylgju með vegan matarbloggið The Broke Vegans:
Mæjónes úr kjúklingabaunasafa: https://thebrokevegans.wordpress.com/2016/09/15/heimagert-aqufaba-mayones/
Mæjónes úr soyamjólk
https://thebrokevegans.wordpress.com/2016/09/15/soya-majones/
En hér er það sem þarf í Brauðréttinn:
Hráefni:
Brauð að eigin vali (ég notaði heimilisbrauð, 7 sneiðar)
5-6 sveppi
2 dósir aspas
7 kúaðar msk af Vegan mæjónesi
Smá salt og pipar
Spínat
Kasjúhnetur (eða aðrar góðar hnetur)
Rifinn vegan ostur (Fæst í gló og hagkaup, ég notaði follow your heart ostinn úr Gló)
Aðferð:
- Byrja á að stilla ofninn á 160 gráður celcius.
- Næst skar ég niður 7 brauðsneiðar í litla teninga og dreifi þeim í eldfast mót.
3. Svo opna ég aspas dósirnar báðar og helli vökvanum úr þeim jafnt yfir brauðið.
4. Blanda saman mæjónesinu, lúku af spínati, sveppunum og aspasinum úr dósunum í skál, salta og pipra létt yfir.
5. Dreifi mæjónesblöndunni yfirbrauðið.
6. Dreifi yfir vegan osti og kasjúhnetum (ég átti ekki meira af kasjúhnetum en sést á myndinni, en mæli með að hafa töluvert meira af þeim)
7. Inn í ofn í 15-20 mín. (fer eftir þykktinni á réttinum, ég hafði í 18 mín þetta sinn)
8. Verði ykkur að góðu 🙂 Þessi stærð af réttinum myndi ég segja að dugaði fyrir 3-4.